Þjónusta Reykjavíkurborgar

Reykjavíkurborg á að vera aldursvæn og heilsueflandi borg sem tekur mið af þörfum allra íbúa. Aðgengileg, aðlaðandi og hentug borg er aldursvæn borg. Á þessum orðum hefst stefna Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara árin 2018 til 2022. Nýja stefnan hefur að leiðarljósi virkur Reykvíkingur alla ævi og tekur mið af því að fólk fái tækifæri til að viðhalda færni sinni og halda áfram að lifa því lífi sem það kýs. Margvísleg þjónusta borgarinnar er liður í að ná þessari stefnu fram.  Öldungaráð var sett á laggirnar hjá Reykjavíkurborg árið 2015. Því er ætlað að vera í samstarfi við borgarstjórn um málefni eldra fólks í borginni. Öldungaráð er skipað fimm fulltrúum og jafnmörgum til vara.

Það er almenn stefna í landinu að allir skuli búa heima eins lengi og kostur er og Reykjavíkurborg hefur sömu stefnu. Til að gera fólki þetta kleift þegar það eldist er boðið upp á margvíslega þjónustu fyrir fólk 67 ára og eldra. Sækja þarf um hana á þjónustumiðstöð borgarinnar í hverfinu þar sem menn búa.

Reykvíkingar 67 ára og eldri fá frítt í sund og inná öll söfn borgarinnar eigi þeir Menningarkort. Þeir fá einnig mikinn afslátt í strætó og ókeypis í skíðalyfturnar á skíðasvæðum borgarinnar.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er mjög gott yfirlit yfir þjónustuna sem borgin veitir eldri íbúum sínum smella hér . Hér á eftir er stutt yfirlit yfir helstu þætti hennar. 

Félagsleg heimaþjónusta

Sjá hér

Fólki er veitt aðstoð við athafnir daglegs lífs, það er að segja þeim sem eiga erfitt með að sinna persónulegri umhirðu. Þetta er meðal annars aðstoð  við að matast, klæðast og aðstoð vði lyfjagjöf.

Aðstoð við heimilishald, er veitt þeim sem geta ekki sinnt heimilshaldinu án aðstoðar, vegna hreyfihömlunar, langvarandi veikinda, skertrar færni eða skertrar andlegrar getu. Aðstoð við heimilishald getur m.a. falið í sér aðstoð á matmálstíma, við innkaup á nauðsynjavörum og almenn heimilisþrif.  Sækja þarf um þjónustuna á næstu þjónustumiðstöð borgarinnar.

Heimsendur matur eða matur í félagsmiðstöðvum.

Heimsendur matur er fyrir þá sem geta ekki annast matseld sjálfir og sjá sér ekki fært að borða í næstu félagsmiðstöð. Öllum eldri borgurum sem geta, er svo frjálst að borða í þeim félagsmiðstöðvum borgarinnar sem eru næst heimili þeirra, en þeir þurfa að hringja í  félagsmiðstöðina fyrir klukkan 9:30 og  til að láta vita að þeir ætli að mæta.  Þeir sem vilja fá heimsendan mat þurfa að sækja um það  í þjónustumiðstöð borgarinnar í hverfinu þar sem þeir búa. Þegar samþykkt umsókn liggur fyrir er hægt að panta matinn samdægurs, en það þarf að gera fyrir klukkan 9:00 að morgni.  Matur á félagsmiðstöðvunum er einungis á virkum dögum, en um helgar geta allir fengið heimsendan mat. Matseðlar félagsmiðstöðvanna eru á netinu og þar er hægt að skoða hvað er í matinn hverju sinni.

Gjaldskrá veitinga og fæðis, bæði heimsent og í móttökueldhúsum.

Matarstefna Reykjavíkurborgar

Þrif

Félagsleg heimaþjónusta s.s. þrif er fyrir alla aldurshópa. Þjónustan er fyrir borgarbúa sem búa í heimahúsum en  geta ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, s.s. vegna  fjölskylduaðstæðna, veikinda eða fötlunar. Sótt er um þjónustuna til þjónustumiðstöðvar borgarinnar í viðkomandi hverfi og er þörf umsækjanda fyrir hana metin í hverju einstöku tilviki.

Notandi greiðir fyrir hverja klukkustund við þrif miðað við gildandi gjaldskrá. Þjónusta umfram sex vinnustundir á mánuði á hvert heimili er endurgjaldslaus. Ákvörðun um lækkun eða niðurfellingu greiðslu vegna heimaþjónustu er tekin af þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Öll umönnun önnur en þrif auk kvöld- og helgarþjónustu er endurgjaldslaus.

Akstursþjónusta

Akstursþjónusta eldri borgara er fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem eru 67 ára eða eldri, búa heima og geta ekki notað almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafa ekki aðgang að eigin farartæki.  Boðið er uppá aksturinn kl. 9:00-17:00 alla virka daga,  en til kl. 19:00 í undantekningartilvikum. Sjá hér

Sótt er um akstursþjónustu eldri borgara í þjónustumiðstöð í hverfinu þar sem umsækjandi býr. Umsóknin er metin á grundvelli möguleika umsækjanda til að nýta sér almenningssamgöngur og/eða aðra ferðamöguleika.  Gjald fyrir aksturinn miðast við gjaldskrá Velferðarsviðs.

Það er einfalt að endurnýja beiðni með því einu að hafa samband við þjónustumiðstöð í þínu hverfi.

Dagdvöl fyrir aldraða á tveimur stöðum

Dagdvöl er stuðningsúrræði fyrir aldraða sem búa í heimahúsum. Markmiðið er að rjúfa félagslega einangrun aldraða og stuðla að því að þeir geti búið lengur heima. Í dagdvöl er boðið upp á tómstundaiðju, léttar leikfimiæfingar, fæði, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Gestir dagdvalar eru sóttir að morgni og ekið heim síðdegis. Dvalartími getur verið frá einum upp í fimm daga í viku. Dagdvöl er rekin á daggjöldum frá velferðarráðuneyti og með greiðsluþátttöku gesta.  Dagdvölin fer fram í Þorraseli á Vesturgötu og á Vitatorgi við Lindargötu.

Heimahjúkrun

Heimaþjónusta Reykjavíkur veitir hefðbundna heimahjúkrun.  Markmið þjónustunnar er að gera þeim sem hennar njóta kleift að búa heima  þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Þjónustan er veitt  náinni samvinnu við íbúann sjálfan  og aðstandendur hans. Heimahjúkrun er veitt án endurgjalds.  Umsókn um heimahjúkrun verður að berast skriflega frá heilbrigðisstofnunum og starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu. Heimahjúkrun er sinnt af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum sem fara til fólks í heimahúsum.

Heimaþjónusta Reykjavíkur ber ábyrgð á  allri heimahjúkrun í Reykjavík og Seltjarnarnesi, heimahjúkrun um kvöld og helgar í Mosfellsbæ og næturþjónustu fyrir allt höfuðborgarsvæðið.  Auk þess sér hún um félagslega kvöld- og helgarþjónustu í  Reykjavík sem og sérhæft geðteymi/Geðheilsustöð Breiðholts.

Heimahjúkrun sinnir:

  • Einstaklingum sem þurfa skilgreindan stuðning.
  • Einstaklingum sem þarfnast sérhæfðrar hjúkrunar.
  • Einstaklingum sem þarfnast víðtækrar hjúkrunar daglega eða oft á dag.

 

Stefnt er að því að þjónustan hefjist innan 2-3 daga  frá því að beiðni liggur fyrir. Ef beiðni berst eftir kl. 12 á föstudegi er ekki hægt að tryggja þjónustu fyrr en næsta virka daga á eftir.
Íbúum Laugardals og Háaleitis er veitt þjónustu frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleits að Efstaleiti 1. Sími 411 1500/411 1590.

Íbúum Breiðholts, Árbæjar,Grafarholts og Grafarvog er veitt þjónusta frá  Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, aðsetur að Hraunbæ 119. Sími 411 9600.

Íbúum í hlíðum, miðbæ, vesturbæ og Seltjarnarnesi er veitt þjónusta frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, aðsetur að Vitatorgi/ Lindargötu 59. Sími 411 9650.

Auk þessa rekur Reykjavíkurborg 17 félgsmiðstöðvar fyrir eldri borgara vítt og breitt um borgina og þjónustuíbúðir sem hægt er að sækja um.

Þá eru fjölmargir, félagasamtök , stofnanir og fyrirtæki í borginni  sem bjóða eldri borgurum uppá félagsstarf, fyrirlestra, tónleika og heimaþjónustu, sem lesa má um annars staðar í upplýsingabankanum.

Nokkur hjúkrunarheimili eru í Reykjavíkurborg, auk þess sem öflug heilsugæsla og aðalsjúkrahús landsins þjónusta eldra fólk, sem og aðra landsmenn. Sjá upplýsingar undir heilbrigðisþjónustu hér í upplýsingabankanum.




Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is