Andlát og útför

Andlát á heilbrigðisstofnun

Þegar andlát ber að á sjúkradeildum, hjúkrunarheimilum eða öðrum heilbrigðisstofnunum staðfestir vakthafandi læknir andlátið og gefur út dánarvottorð. Læknir eða hjúkrunarfræðingur hefur samband við aðstandendur hafi þeir ekki verið viðstaddir á dánarstund.

Reynt er eftir föngum að verða við óskum aðstandenda um að fá að vera um stund með hinum látna. Boðið er upp á bænastund með presti eða forstöðumanni trúfélags fyrir þá sem slíkt kjósa.

Eftir andlátið hafa aðstandendur samband við prest, forstöðumann trúfélags / lífsskoðunarfélags eða útfararstjóra sem leiðbeina varðandi næstu skref.

Andlát í heimahúsi – utan stofnana

Við andlát utan stofnana, eða þegar hinn látni hefur ekki notið umönnunar heilbrigðisstarfsfólks, er lögregla kvödd til auk sjúkraflutningamanna og læknis sem staðfestir andlátið.

Lögregla rannsakar vettvang og ákveður í samráði við lækni hvort unnt sé að kveða upp úr um dánarorsök. Sé það ekki hægt skal réttarkrufning fara fram samkvæmt lögum.

Lögregla er ábyrg fyrir að hinn látni sé fluttur í líkhús. Oft er flutningurinn falinn útfararþjónustu eða þar til bærum aðilum. Stundum gefst færi á því að hafa kveðjustund áður en að því kemur.

Dánarvottorð

Fá þarf dánarvottorð á heilbrigðisstofnun eða hjá lækni, afhenda sýslumanni og taka við skriflegri staðfestingu. Sýslumaður gefur út vottorð um að andlát hafi verið tilkynnt og er vottorðið afhent tilkynnanda eða þeim sem sér um útför hins látna. Útför má ekki fara fram nema vottorð sýslumanns um tilkynningu andláts liggi fyrir. Sjá nánar hér.

Erfingjar skulu hlutast til um skiptingu dánarbús innan fjögurra mánaða frá andláti.

Frekari upplýsingar sem snerta andlát er að finna á island.is, þar á meðal um andlát erlendis.

 

Útför

Litið er á útför sem kveðjuathöfn samfélagsins.

Útfarir á vegum þjóðkirkjunnar fara fram í samræmi við helgisiðabók og handbók íslensku kirkjunnar.

Þegar um er að ræða útfarir þeirra sem tilheyra öðrum trúfélögum eða lífsskoðunarfélögum, gilda siðir og venjur viðkomandi félags. Borgaraleg útför fer fram án þátttöku prests eða annars fulltrúa kirkjunnar.

Ef hinn látni tilheyrði ekki neinu trúfélagi er aðstandenda að ákveða hvernig athöfn er háttað.

Útför getur ekki farið fram nema staðfesting sýslumanns á viðtöku dánarvottorðs liggi fyrir.

Útfararþjónusta

Útfararstofur bjóða þjónustu sem snúa að skipulagi og framkvæmd útfararinnar. Þjónustan er að einhverju leyti mismunandi eftir stofum en yfirleitt er boðið upp á aðstoð við að útvega kirkju eða annan stað fyrir útförina, aðstoð við að velja kistu og líkklæði og búa um hinn látna, vera í samskiptum við tónlistarmenn, og annast frágang útfararskrár.

Listi yfir þá sem hafa leyfi til að reka útfararþjónustu – af vef sýslumannsembættanna.

Eftirfarandi útfararstofur eiga aðild að Félagi útfararstofa, nema Útfararþjónusta Kirkjugarða Akureyrar.

Útfararþjónusta Suðurnesja, Vesturbraut 8, 230 Reykjanesbæ. s.421-5333 og gsm. 894-3833.
Útfararþjónusta Borgarfjarðar, Borgarbraut 14, 310 Borgarnesi. gsm 898-9253.

Umfjöllun um útfarir á island.is

Erfidrykkja

Margir bjóða til erfidrykkju eftir útför. Eftir atvikum í heimahúsi, eða í sal sem hentar. Í þéttbýli er víða boðið upp á aðstöðu til erfidrykkju í safnaðarheimili viðkomandi kirkju. Fjölmarga aðra sali er hægt að leigja fyrir erfidrykkju, ýmist með eða án veitingaþjónustu. Hér má finna yfirlit yfir sali til leigu.

Kostnaður

Kostnaður við útför er misjafn eftir því hvaða leiðir eru valdar. Aðstandendur ættu að kynna sér allan kostnað vel við undirbúning útfarar.

Samkvæmt reglugerð er kostnaður vegna prestsþjónustu við kistulagningu og útför greiddur af kirkjugörðunum, sem og kostnaður vegna grafartöku.


Útfararstyrkir

Ef ljóst þykir að dánarbú hins látna geti ekki staðið undir útför, getur aðstandandi sótt um útfararstyrk í því sveitarfélagi sem hann býr, að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar um útfararstyrk er að finna í reglum sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð.

Mörg stéttarfélög veita útfararstyrk vegna látinna félagsmanna sinna að uppfylltum vissum skilyrðum. Nánari upplýsingar fást hjá félögunum. Hér fyrir neðan má sjá dæmi um hvernig dánarbætur eru greiddar, en það er fengið hjá Eflingu.

Réttindi vegna andláts maka

Sjá hér um réttindi vegna andláts maka – af vef Tryggingastofnunar.




Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is