Lífeyrissjóðir

Eftirlaunin

Eftirlaunakerfið hér á landi byggir á þremur stoðum.

  1. stoðin er almannatryggingar.
  2. stoðin eru lífeyrissjóðirnir.
  3. stoðin er frjáls einstaklingsbundinn lífeyrissparnaður.

Réttindi

Íslenskir launamenn greiða allir í lífeyrissjóði, en töluverður munur hefur verið á lífeyrisréttindum þeirra eftir því hvort þeir hafa unnið í opinbera geiranum eða hjá einkafyrirtækjum. Opinberir starfsmenn höfðu almennt betri lífeyrisréttindi, enda greiddi ríkið meira í lífeyrissjóði fyrir hvern starfsmann en gert var í einkageiranum.  Með SALEK samkomulaginu frá 2016 var stefnt að því að samræma lífeyriskjörin í landinu. Frá og með 1.júlí 2018, varð framlag með hverjum starfsmanni á vinnumarkaði í lífeyrissjóð,samtals 15,5% af launum hans og skiptir þá ekki máli hvar hann starfar.

Ellilífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða eru misjafnlega stór hluti tekna fólks á eftirlaunaárunum. En frá 1974 hefur það verið lögbundin skylda að allir launamenn og vinnuveitendur þeirra greiði í lífeyrissjóði.

Lífeyrisaldur

Almennt hefja lífeyrissjóðir útborgun lífeyris við 67 ára aldur en nokkrir sjóðir miða við 65 ára aldur og jafnvel 62 ára. Mikilvægt er að kynna sér reglur þeirra sjóða sem menn hafa greitt í.

Lífeyrissjóðir geta heimilað sjóðfélögum sínum að fresta töku lífeyris eða flýta henni um allt að fimm ár. Mánaðarlegar greiðslur hækka þá ef töku lífeyris er frestað, en lækka ef töku lífeyris er flýtt.

Í árslok 2016 voru samþykkt lög sem kveða á  um að lífeyrisaldur á opinbera markaðnum hækki í  67 ár til samræmis við lífeyristökualdur á almennum markaði. Þetta var gert í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga við heildarsamtök opinberra starfsmanna í september 2016.  Sjá hér.

Fjárhæðir – útborgun lífeyris

Lífeyrisréttindin miðast við þau iðgjöld sem greidd eru í sjóðinn. Samkvæmt lögum eiga lífeyrissjóðir að tryggja lífeyri sem nemur að lágmarki 56% af þeim launum sem greitt var af í sjóðinn, í mánaðarlegan ellilífeyri til æviloka. Það miðast við að iðgjald hafi verið greitt í 40 ár.  Sjá lög um lífeyrissjóði.

Sækja þarf um greiðslur úr lífeyrissjóðum. Umsóknareyðublöð er að fá hjá hverjum sjóði. Þau má einnig nálgast á vefjum lífeyrissjóðanna og hægt er að fá þau send.

Ellilífeyrir er greiddur út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka.

Tekjur maka hafa ekki áhrif á upphæð ellilífeyris úr lífeyrissjóðum. Eingöngu er miðað við inngreiðslur sjóðfélaga í lífeyrissjóði.

Lífeyrisgreiðslur eru verðtryggðar. Hjá flestum lífeyrissjóðum breytist upphæð lífeyris til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs. Hjá sumum sjóðum reiknast lífeyrir sem hlutfall af launum og hækkar því í samræmi við launahækkanir.

Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar eins og launatekjur. Persónuafsláttur dregst frá lífeyrisgreiðslum eins og öðrum tekjum áður en til skattlagningar kemur. Skattkort hafa verið lögð af, persónuafslátturinn virkjast rafrænt. Lífeyrisþegi þarf engu að síður að upplýsa um hvernig hann vill ráðstafa persónuafslættinum; í einum lífeyrissjóði, fleirum eða vegna atvinnutekna.

Lífeyristekjur geta haft áhrif á bætur almannatrygginga sem eru tekjutengdar. Þannig lækkar sá lífeyrir sem menn fá frá Tryggingastofnun í ákveðnu hlutfalli við hækkun lífeyris úr lífeyrissjóði eða sjóðum.

Lífeyrisréttindum skipt jafnt milli hjóna

Ef miklu munar á tekjum hjóna, og þar með lífeyrisgreiðslum hvors um sig, geta sjóðfélagi og maki gert samkomulag um að verðmæti uppsafnaðra lífeyrisréttinda og/eða framtíðarréttindi, skiptist jafnt milli þeirra. Skiptingin skal þá vera gagnkvæm. Heimildin nær til allt að helmings lífeyrisréttindanna. Skipting lífeyrisréttinda milli hjóna nær þó aðeins til þeirra réttinda sem hafa áunnist á meðan hjúskapur eða sambúð hefur staðið

Samkomulag um skiptingu áunninna réttinda skal eiga sér stað áður en taka ellilífeyris hefst, í síðasta lagi áður en 65 ára aldri er náð.

Eign í mörgum sjóðum

Lífeyrisréttindi eru ekki flutt milli sjóða, en lífeyrissjóðirnir hafa ákveðnar reglur um samskipti sín á milli. Þegar kemur að töku lífeyris er því nægjanlegt að senda inn umsókn til þess sjóðs sem síðast var greitt til og sér hann um að senda umsóknina áfram til annarra sjóða sem greitt hefur verið í.

Með Lífeyrisgáttinni er hægt að fá yfirsýn yfir lífeyrisréttindi hjá öllum þeim sjóðum sem greitt hefur verið í. Þegar gáttin er opnuð sjást tenglar á alla sjóðina í Landssamtökum lífeyrissjóða. Ef smellt er á tengil einhvers þeirra sjóða sem greitt hefur verið í, opnast möguleiki á innskráningu gegnum island.is. Á persónulegri síðu hvers og eins er síðan hægt að fá yfirlit yfir alla sjóði sem greitt hefur verið í, með upplýsingum um áætlaðan mánaðarlegan lífeyri frá hverjum þeirra, miðað við inneign sjóðfélaga.

Viðbótarlífeyrir / séreignasparnaður

Viðbótarlífeyrissparnaður er frjáls sparnaður þar sem launafólk getur lagt hluta af launum sínum til hliðar á sérstakan reikning og fengið mótframlag frá vinnuveitanda.

Töku viðbótarlífeyris má hefja þegar 60 ára aldri er náð og má þá taka hann út í einu lagi. Hægt er að dreifa greiðslunum ef sjóðfélagi óskar þess.

Viðbótarlífeyrissparnaður er eign sjóðfélagans. Við andlát hans er innistæðunni, að viðbættum verðbótum og vöxtum, skipt á milli lögerfingja hans og hún greidd út samkvæmt ákveðnum reglum. Athugið að viðbótarlífeyrissparnaður hefur ekki áhrif á þær greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem menn kunna að eiga rétt á

Tekjuskattur er lagður á útborgaðan viðbótarsparnað.

Makalífeyrir

Makalífeyrir er mjög mismunandi eftir lífeyrissjóðum og því er afar mikilvægt að kynna sér þennan rétt í sínum lífeyrissjóði. Almenna reglan er að óskertur makalífeyrir skuli greiddur í að minnsta kosti tvö ár. Framhaldið ræðst af heimilisaðstæðum og reglum viðkomandi lífeyrissjóðs. Sumir lífeyrissjóðir greiða fullan eða skertan makalífeyri til æviloka. Aðrir greiða makalífeyri í 2-3 ár. Hann fellur þó alltaf niður ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til nýrrar sambúðar.

Tvær helstu gerðir lífeyriskerfa

Í grein sem Gunnar Baldvinsson þáverandi formaður Landssamtaka lífeyrissjóða skrifaði í Morgunblaðið í september 2012, skýrði hann muninn á tvenns konar lífeyriskerfum sem við lýði eru á Vesturlöndum.  Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Gegnumstreymi

Gegnumstreymiskerfi greiðir eftirlaunaþegum lífeyri beint af tekjum þeirra sem eru vinnandi. Kerfið gerir ráð fyrir að ein kynslóð greiði fyrir aðra eða að vinnandi menn greiði af sköttum fyrir foreldra sína og njóti svo í staðinn sambærilegra greiðslna frá börnum sínum eftir að sest er í helgan stein. Kosturinn við gegnumstreymiskerfi er að hægt er að greiða lífeyrisþegum góðan lífeyri strax við upptöku kerfisins. Gallinn er hins vegar að lífeyrisbyrði leggst mismunandi þungt á kynslóðir. Margar þjóðir komu á gegnumstreymiskerfi þegar hlutfall aldraðra var tiltölulega lágt og standa nú frammi fyrir miklum vanda vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu og  aukins hlutfalls aldraðra á næstu áratugum.

Sjóðsöfnun

Sjóðsöfnunarkerfi byggist hins vegar á að hver kynslóð sparar og safnar upp sjóði til að standa undir eftirlaunum þegar hún hættir að vinna. Kosturinn við sjóðsöfnunarkerfi er að hver kynslóð sér um sig og leggur ekki byrðar á næstu kynslóðir. Gallinn er hins vegar að það tekur mjög langan tíma að byggja upp sjóð sem greiðir góð eftirlaun.

Íslenska lífeyriskerfið er fyrst og fremst á sjóðsöfnunarkerfi, en eldri hluti Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, B-deildin, byggir á blöndu af hvoru tveggja, gegnumstreymi og að hluta til sjóðssöfnun. B-deildin geymir réttindi eldri starfsmanna, nýir sjóðfélagar LSR hafa frá 1997 greitt í A-deildina.

Sagan

Hugmyndir um lífeyri til handa hinum eldri má rekja allt til þjóðveldisaldar því í hreppunum til forna var gert ráð fyrir stuðningi við þá sem ekki gátu framfleytt sér sjálfir. Lífeyriskerfið á nútíma vísu á sér þó mun styttri sögu. Almannatryggingar koma til skjalanna með stofnun Tryggingastofnunar ríkisins í lögum um alþýðutryggingar árið 1936, og grunn almenna lífeyrissjóðakerfisins má rekja til ákvörðunar sem tekin var í tengslum við almenna kjarasamninga vorið 1969.

Saga almannatrygginga – af vef Tryggingastofnunar

 
Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is