Styrkir og bætur

Uppbætur á lífeyri

Auk ellilífeyris geta ellilífeyrisþegar átt rétt á uppbótum á ellilífeyri svo sem heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir, og uppbót vegna reksturs bifreiðar ef um líkamlega hreyfihömlun er að ræða svo dæmi séu tekin. Einnig eru greiddar uppbætur vegna sérstakra útgjalda.


Styrkir vegna hjálpartækja

Sjúkratryggingar Íslands greiða styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ. á m. útivist og íþróttir).

Sækja verður um styrk áður en hjálpartækið er keypt. Heilbrigðisstarfsmaður eins og læknir, iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari metur þörf fyrir hjálpartækið og fyllir út sérstaka umsókn.

Styrkir eru eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerð þar um.

Dæmi um slík tæki eru m.a. göngugrindur, hjólastólar, hjálpartæki við salernisferðir, hárkollur, og heyrnartæki.

Styrkur getur ýmist verið greiddur sem ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða ákveðin fjárhæð til kaupa á hjálpartæki. Þegar um er að ræða samninga Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar útboðs, er styrkur frá stofnuninni háður því að hjálpartæki sé keypt hjá tilteknu samningsbundnu fyrirtæki.


Heyrnartæki

Styrkur til kaupa á heyrnartækjum er veittur á fjögurra ára fresti. Fjárhæð styrks er 50.000 kr. fyrir hvort eyra eða 100.000 kr., ef keypt eru tæki fyrir bæði eyru ( 2017)

Þegar keypt eru heyrnartæki hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er styrkurinn innifalinn í uppgefnu verði,  þ.e. búið er að draga styrkupphæðina frá heildarkostnaði.

Sækja þarf sérstaklega um styrk frá Sjúkratryggingum Íslands vegna kaupa á heyrnartækjum hjá fyrirtækjum sem fengið hafa rekstrarleyfi hjá Velferðarráðuneytinu.

Rekstrarleyfishafar eru fyrirtækin:

Til að sækja um heyrnartækjastyrk hjá Sjúkratryggingum er ekki útfyllt sérstakt eyðublað, heldur skilar umsækjandi inn frumriti reiknings, heyrnarmælingu og upplýsingum um bankareikning. Heyrnarmælingar þurfa að vera framkvæmdar af löggiltum heyrnarfræðingi, eða háls-, nef- og eyrnalækni.


Hárkollur

Sjúkratryggingar Íslands veita styrk til kaupa á hárkollum og/eða sérsniðnum höfuðfötum, gerviaugabrúnum/húðflúri og augnhárum/húðflúri, þegar um er að ræða varanlegt hárleysi, hárleysi vegna krabbameinsmeðferðar eða innkirtlameðferðar,  eða útbreiddan langvarandi blettaskalla, þ.e. í meira en eitt ár. Hámarksstyrkur vegna kaupa á hárkollum eða samsvarandi vörum er 94.000 krónur á mánuði.

Sjá nánar um hjálpartæki hér.

Meira um styrki, bætur og kjör á island.is

 

 
Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is