Efnisyfirlit
Aldraðir sem ekki treysta sér lengur til að búa á heimili sínu geta sótt um vist á viðeigandi öldrunarstofnun. Annars vegar er um að ræða dvalarheimili, sambýli og íbúðir, sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Hins vegar hjúkrunarrými, þ.e. hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum fyrir aldraða einstaklinga sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum.
Þegar eldra fólk á orðið erfitt með að vera heima allan daginn er mögulegt að það geti komist í dagdvöl á stofnun. Boðið er upp á dagdvalir um allt land, en sótt er um að komast í þau hjá sveitarfélögunum?
Dagdvöl á höfuðborgarsvæðinu.
Dagdvöl á Vesturlandi og Vestfjörðum
Dagdvöl á Norðurlandi og Austurlandi
Dagdvöl á Suðurlandi og Suðurnesjum.
Dvalarheimili
Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.
Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.
Hvíldar-/endurhæfingarinnlögn
Víða á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum er boðið upp á hvíldar- eða endurhæfingarinnlögn fyrir aldraða. Slík innlögn getur hentað öldruðum sem hafa lagst inn á spítala og þurfa tímabundna umönnun og endurhæfingu áður en þeir geta farið heim. Eins er þessu úrræði ætlað að styðja við sjálfstæða búsetu aldraðra þegar tímabundin hvíld og endurhæfing getur haft jákvæð áhrif á getu hins aldraða til að búa heima, samhliða því að vera stuðningur við aðstandendur sem oft gegna mikilvægu hlutverki í stuðningsneti viðkomandi. Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar sérstök færni- og heilsufarsnefnd sem metur þörf fólks fyrir tímabundna hvíldarinnlögn.
Lögheimili flutt
Samkvæmt lögum er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Lögheimili er því gjarnan flutt á dvalar- eða hjúkrunarheimilið, en einnig er mögulegt samkvæmt upplýsingum frá Hagstofnunni, að flytja lögheimili hins aldraða á heimili náins ættingja eða þess sem annast mál hans.
Umsókn um hjúkrunar- eða dvalarheimili
Áður en pláss til varanlegrar búsetu fæst á hjúkrunar- eða dvalarheimili þarf viðkomandi að gangast undir færni- og heilsumat. Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar færni- og heilsumatsnefnd sem metur þörf fólks fyrir þessi úrræði. Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með framkvæmd matsins.
Umsóknareyðublað (sjá hér ) sem berast þarf færni- og heilsumatsnefndum er ekki hægt að senda rafrænt. Prenta þarf eyðublaðið út og koma til viðkomandi nefndar. Umsókn um færni- og heilsumat skal því aðeins lögð fram að félagsleg heimaþjónusta, heimahjúkrun og önnur raunhæf úrræði og aðstoð sem eiga að styðja fólk til búsetu í heimahúsi séu fullreynd.
Færni- og heilsumatsnefndir eftir umdæmum
Hjúkrunar- og dvalarheimili