Að fá ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins

Hvað varðar upphæð ellilífeyris frá TR skiptir máli hvort menn búa einir eða með öðrum, hvort þeir hafa atvinnutekjur, fjármagnstekjur eða tekjur úr lífeyrissjóði.  Þannig byrja atvinnutekjur yfir 200 þúsund kr. á mánuði eða 2.400.000 kr. á ári, sem er frítekjumarkið, að lækka greiðslur til viðkomandi einstaklings frá TR um 45%.  Frítekjumark atvinnutekna hækkaði úr 100.000 á mánuði  í 200.000 um áramótin 21/22.  Það sama gildir um fjármagnstekjur og tekjur úr lífeyrissjóði. Þegar komið er yfir 25 þús. kr. samanlagt frítekjumark á mánuði , skerðist greiðslan frá TR um 45%.  Það þýðir að af 100 þúsund króna tekjum umfram frítekjumarkið, lækkar lífeyrisgreiðslan frá TR um 45 þúsund krónur.  Þeir sem búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót, en það er viðbótargreiðsla sem tekur tillit til þess að það er kostnaðarsamara fyrir einn einstakling að reka heimili, en tvo.

 • Ellilífeyrir þeirra sem búa ekki einir er að hámarki 278.271 kr. á mánuði.
 • Heimilisuppbót er að hámarki um 70.317 kr. á mánuði.
 • Greiðslan frá TR til þeirra sem búa einir getur því að hámarki orðið rúmar 348.588 kr.
 • Frítekjumark skattskyldra tekna er eins og áður 25.000 kr. á mánuði og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna er 200.000 kr. á mánuði.
 • Hægt er að fara á hálfan lífeyri frá TR á móti hálfum lífeyri frá lífeyrissjóðum, að  uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sjá nánar hér.

Mínar síður á vef Tryggingastofnunar eru aðgengilegar þeim sem eru með Íslykil frá Þjóðskrá eða rafræn skilríki og  þar er að finna upplýsingar sem snúa að persónulegum lífeyrisgreiðslum til þeirra. Allir eru hvattir til að notfæra sér þessa leið, sem auðveldar þeim að hafa yfirsýn yfir allt sem varðar lífeyrisréttindi þeirra. Smelltu hér til að sjá Mínar síður.

Tekjuáætlun

Upphæð ellilífeyris er reiknuð út frá tekjuáætlun og mikilvægt er að hún sé rétt.

 • Lífeyrisþegar fá árlega senda tekjuáætlun frá Tryggingastofnun, þar sem áætlaðar tekjur næsta árs koma fram.
 • Ef lífeyrisþegi gerir ráð fyrir að tekjur hans verði hærri eða lægri en tekjuáætlun segir til um verður hann að gera athugasemd innan tiltekinna tímamarka. Annars telst áætlunin samþykkt.
 • Ef breytingar verða á tekjum eða aðstæðum lífeyrisþega er ráðlegt að tilkynna það jafnóðum til TR. Þetta gildir til dæmis um atvinnutekjur og greiðslur frá lífeyrissjóði.
 • Ef fjármagnstekjur myndast, til dæmis vegna söluhagnaðar eða arðs af sölu húsbréfa eða annarra verðbréfa.
 • Breytt hjúskaparstaða. Ef menn fara að búa einir eiga þeir rétt á heimilisuppbót og öfugt. Ef fólk fer að búa með öðrum missir það heimilisuppbótina.
 • Á hverju vori eru lífeyrisgreiðslur ársins á undan endurreiknaðar út frá endanlegum upplýsingum í skattframtali um tekjur.
 • Ef tekjur lífeyrisþega reynast hærri við endurreikning en áætlað var getur komið til þess að dregið sé af bótagreiðslum næsta árs. Frádráttur getur numið allt að 20% bóta. Sama gildir um það ef tekjuáætlunin var lægri en raunverulegar tekjur urðu, Þá getur fólk átt rétt á endurgreiðslu frá TR.

Uppbætur á lífeyri

Hægt er að sækja um uppbætur á lífeyrisgreiðslurnar vegna sérstakra aðstæðna. Þetta eru til dæmis heimilisuppbót, uppbót á lífeyri til dæmis vegna lyfjakostnaðar, uppbót vegna reksturs eða kaupa bifreiðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og maka- og umönnunarbætur, sem eru hugsaðar vegna tekjurtaps þess sem annast veikan maka sinn.  Sjá hér.

 
Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is