Að fara á eftirlaun og sækja um ellilífeyri

Að fara á eftirlaun og sækja um ellilífeyri

Athugið að þessi síða hefur ekki verið uppfærð frá því hækkanir urðu um áramót. Unnið er að uppfærslu.

Það er gott að hefja þá vegferð að hætta launuðum störfum og fara á eftirlaun, með góðum fyrirvara og kynna sér vel réttindi sín, bæði hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun ríkisins.  Þetta spilar allt saman og það er mjög einstaklingsbundið hvernig réttur hvers og eins er. Hvað hann hefur greitt lengi í lífeyrissjóð, hvaða aðrar tekjur hann fær og hvort hann á rétt á lífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir sem eru með rúmlega 643 þúsund krónur á mánuði til dæmis frá lífeyrissjóðnum sínum eða öðrum, eiga ekki rétt á greiðslum frá TR.  En þeir sem eru undir þeim mörkum, eiga rétt á misjafnlega háum ellilífeyrisgreiðslum frá ríkinu. Rétt er að benda á að sækja þarf um að fá greiddan ellilífeyri, hann kemur ekki sjálfkrafa inná bankareikninginn. Um  ellilífeyri frá Tryggingastofnun gildir almennt:

  • Þeir sem eru 67 ára og hafa búið á Íslandi í 40 ár frá því þeir eru 16 ára og þar til þeir ná 67 ára aldri hafa full ellilífeyrisréttindi. Þeir sem ekki ná þessu búsetuviðmiði hafa rétt til ellilífeyris í hlutfalli við búsetu sína hér á landi.
  • TR stendur fyrir almennri fræðslu fyrir fólk sem er að nálgast 67 ára aldurinn, þar sem veittar eru helstu upplýsingar um lífeyrisréttindin.
  • Nauðsynlegt er að sækja um ellilífeyri, en hann myndast þó sjálfkrafa hjá örorkulífeyrisþegum næsta mánuð eftir að viðkomandi nær 67 ára aldri.
  • Þegar sótt er um ellilífeyri þarf jafnframt að skila inn tekjuáætlun. Allar breytingar á tekjum frá því sem TR hefur upplýsingar um þarf að tilkynna. Því fyrr sem það er gert því betra.
  • Lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar eins og launa- og lífeyrissjóðstekjur.
  • Skattkorti má skipta milli Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóða, eða annarra launagreiðenda ef lífeyrisþegi hefur aðrar tekjur en ellilífeyri. Einnig má nýta ónýttan persónuafslátt maka.

Hægt er að flýta töku ellilífeyris frá TR og sækja um að fá hann frá 65 ára aldri, en það þýðir lækkun á lífeyrinum og heimilisuppbót sé hún til staðar, um sem svarar 0,5% á mánuði og öfugt ef menn seinka töku ellilífeyris, þá hækkar hann um 0,5% á mánuði, en að hámarki um 30%.  Það má fresta töku lífeyris til 72ja ára. Frá 1.janúar 2018 geta þeir sem eru fæddir árið 1952 eða síðar frestað töku ellilífeyris til 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun sem mun byggjast á tryggingafræðilegum grunni.

Á vefsíðu Tryggingastofnunar ríkisins er reiknivél, þar sem hægt er að slá inn ákveðnar forsendur og sjá hversu mikinn ellilífeyri menn geta reiknað með að fá frá stofnuninni.  Reiknaðu út lífeyrinn þinn hér.




Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is