Heilbrigðisþjónusta

Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2007 skal stefnt að því að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Um áramótin 2018/2019 varð sú breyting gerð á gjaldskrám heilsugæslunnar að komugjöld hjá 67 ára og eldri voru felld niður. Þeir greiða því ekkert fyrir að fara til heimilislæknis á heilsugæslustöð.

Landinu er skipt upp í heilbrigðisumdæmi. Engu að síður skulu sjúklingar jafnan eiga rétt á að leita til þeirrar heilsugæslustöðvar eða heilbrigðisstofnunar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni.

Heilsugæslustöðvar í fjölmennari bæjarfélögum eru að jafnaði opnar átta tíma á dag. Utan opnunartíma þeirra er á höfuðborgarsvæðinu hægt að leita til Læknavaktarinnar, og í öðrum heilbrigðisumdæmum fá upplýsingar í síma Læknavaktarinnar um hvert menn eiga að snúa sér þegar veikindi ber að höndum. Númerin eru 1700 og 1770.  Þessi númer eru raunar lykilnúmer fyrir alla þá sem þurfa á læknisþjónustu að halda, sama hvar á landinu þeir búa. Þar er svarað í síma allan sólarhringinn og menn geta fengið ráðleggingar um hvert þeir geta leitað.

Þak er á greiðslum eldri borgara fyrir heilbrigðisþjónustu. Árið 2024 eiga þeir að hámarki að greiða  rúmar 23.000 krónur á mánuði.

Á öllu landinu gildir neyðarnúmerið 112 þegar um bráð veikindi eða slys er að ræða.




Fara á lifdununa.is

Ábendingar

Upplýsingabankinn er tilraunaverkefni sem verður þróað áfram. Ef þú hefur ábendingar um það sem betur má fara í bankanum, hafðu endilega samband við okkur á netfangið upplysingabanki@upplysingabanki.is